Almennar fréttir

30. október 2006

Feneyjartvíæringurinn

Eins og nafnið gefur til kynna eru Feneyjar undirlagðar í byrjun hausts annaðhvert ár af La biennale di Venezia eða Feneyjartvíæringnum þar sem listir ráða ríkjum og allt hið nýja í heimi lista-og menningar víðsvegar um heiminn er kynnt.  Upphaf tvíæringsins má rekja aftur til 1895 og er hann staðsettur á svæði sem kallast Giardini di Castello eða kastalagarðarnir. Á því svæði eru 30 skálar frá löndum víðsvegar um heim sem notaðir eru til að kynna list hvers lands fyrir sig og má finna nöfn arkitekta eins og Gerrit Rietveldt, Carlo Scarpa og Sverre Fehn meðal þeirra sem svip hafa sett á svæðið með sinni byggingarlist.  Ég hef áður sýnt skála norðmanna teiknuðum af Sverre Fehn sem er ótrúlega látlaus og fallegur. Var svo heppin að heimsækja skálann með arkitektinum sjálfum og vil endilega ítreka að ef heimsækja á svæðið heim, að skoða þennan demant gaumgæfilega.

Þátttaka íslendinga

Arkitektúr á sinn sess á biennalnum en byggingarlist hefur haft sérstöðu þar undanfarin 26 ár, áður var hún kynnt sem hluti af listsýninganna.  Yfirskriftin er að þessu sinni: Arkitektúr, borgir og samfélag, mikilvægt þema sem hægt er að skoða frá mörgum vinklum.  Arkitektasýning tvíæringsins stendur yfir frá 10. september til 19. nóvember og núna eru um alls 50 lönd sem taka þátt í þeim hluta biennalsins.  Íslendingar verða með að þessu sinni og er fyrirhugað að sýna tónlistar-og ráðstefnuhúsið ásamt umhverfi. Er það Ólafur Elíasson ásamt HLT, tegnestue Henning Larssen sem bera hita og þunga af þeirri sýningu.  Verið er að gera fullkomið módel af húsinu sjálfu ásamt ýmsu öðru sem mun koma gestum og gangandi skemmtilega á óvart.

Spennandi heim að sækja

Fjöldi fólks í menningargeiranum frá öllum heimshornum leggur leið sína til Feneyja á meðan að biennalnum stendur og því geta íslendingar  sem eru að halda á vit sólarinnar við Adriahaf hvort heldur sem það er Ítalíumegin eða til Krótatíu ekki missa af þessum einstaka viðburði og tækifæri til að kynna sér það sem efst er á baugi í listum-og arkitektúr.  Íslenska sýningin er ekki inn á Giardini svæðinu heldur í svokallaðri Vivaldi kirkju eða Santa Maria della Pieta eins og hún heitir réttu nafni.  Skálinn og módelið af tónlistarhúsinu hefur verið mikið heimsóttur og hlotið mikla athygli enda um arkitektúr á heimsmælikvarða og metnaðarfullt verkefni að ræða. 
Í Feneyjum er óhemjufögur brú sem ekki má missa af, Rialto brúin.  Það er varla komist hjá því að ramba á hana enda elsta brúin yfir Grand Canale og sú frægasta. Hún hefur verið margbyggð í gegnum tíðina en sú sem við sjáum hér er frá 1591 og hönnuð af Antonio da Ponte og er víst mjög lík trébrúnni sem upphaflega var smíðuð yfir kanalinn 1181. 

Carlo Scarpa i Feneyjum

Arkitektinn Carlo Scarpa er einn af stóru nöfnunum í arkitektúr 20. aldarinnar og þekktur fyrir einstaka tilfinningu fyrir efnum og áferðum ásamt því að vera einstaklega næmur á samhengi hlutanna. Hann kenndi m.a. í arkitektaskólanum í Feneyjum og setti svip sinn á þennan sögufræga stað.  Bókasafn og gallerí sem kallast Querini Stampalia foundation sem staðsett í 16. aldar höll var einmitt endurgerð af Scarpa, með tilliti til þeirra kringumstæðna sem ríkja í Feneyjum, vatnið verður hluti af fyrstu hæð byggingarinnar þar sem gólfum er lyft þar sem það á við. Inngangurinn er um undurfagra brú sem er einkennandi fyrir Carlo Scarpa, Efnisnotkun tekur vel á móti veðri og vindum og nútíminn ( þá 1963 ca) fellur að fortíðinni átaklaust.

Garðarnir sem tilheyra eru svo kafli út af fyrir sig og fleiri prósjekt eftir Scarpa fá umfjöllun síðar.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn