Almennar fréttir

20. janúar 2011

Fréttir af framkvæmdum við bílastæðahús Hörpunnar

Verið er að byggja bílastæðahús neðanjarðar við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu. Um mikið mannvirki er að ræða enda mun bílakjallarinn verða á tveimur hæðum og rúma 545 bíla. Áætlanir gera ráð fyrir að í mannvirkið fari um 24.000 m3 af steypu, 2.350 tonn af stáli og 18.600 m2 af kúluplötum.

Mannvirkið er byggt sunnan megin við Hörpu og stendur við sjóinn. Sjór mun því síast inn um jarðveginn og ýta upp undir bygginguna og því er mikilvægt að nýta þær aðferðir sem gefast til að þyngja mannvirkið. Ankeri eru notuð til að halda byggingunni niðri ásamt jarðvegsfyllingu sem sett er milli neðstu botnplötu mannvirkisins og neðstu akstursplötu þess. Ankerin sem eru 500 talsins eru 12 til 17 metra löng. Þau voru steypt niður í borholur undir neðri botnplötu bílageymslunnar.

Staða framkvæmda er nú þannig að búið er að steypa botnplötuna að mestu. Þegar er búið að reisa 3.000 m2 af hvorri hæð bílalastæðahússins. Nú er verið að keyra inn fyllinguna, sem notuð er til að þyngja neðstu botnplötuna en fyllingin er alls um 12.000 m3. Við flutningana eru notaðar stórvirkar vinnuvélar eins og sjá má á mynd. Framkvæmdir við innakstursleiðina er einnig í gangi en keyrt verður inn frá Kalkofnsvegi.

Reikna má með að rúmlega helmingi framkvæmda sé lokið en bílkjallarinn verður tekinn í notkun vorið 2011 um leið og Harpan.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn