Almennar fréttir

12. desember 2014

Fréttir frá Snekkestad í Noregi

Hérna á Snekkestad er allt á fullu þessa dagana. Lokadagsetning fyrir norðurhlutann af göngunum, ca. 1 km af jarðgöngum, er þann 18. desember og við erum að vinna í þeim lokafrágangi á fullu. Seinni hlutanum af göngunum, ca. 1,1 km, á að skila þann 12. janúar 2015. Samkvæmt okkar áætlun þá munum við ná að klára báða verkhlutana á áætlun.

Á tímabilinu frá júlí og til dagsins í dag hafa starfað hjá okkur með undirverktökum á bilinu 95 til 115 manns. Aðalframkvæmdirnar seinustu mánuðina hafa verið uppsetning á forsteyptum einingum og vatnsklæðningum, uppsteypa á tæknihúsum og vegskálum ásamt annarri steypuvinnu og svo jarðvinna og lagning á kapalstokkum, ídráttarrörum og brunnum. Þessi vinna hefur gengið vel og strákarnir og stelpurnar okkar hafa það orð á sér hjá verkkaupa og öðrum hér á svæðinu að vinna þeirra sé til fyrirmyndar fyrir aðra verktaka, eða eins og það er sagt á norsku „eksemplarisk utførelse“.  Þessi orð voru sögð af yfirverkefnisstjóranum hjá Jernbaneverket eftir að hann hafði farið í vettvangsskoðun í byrjun þessarar viku.

Við erum byrjuð að taka niður vinnubúðirnar og munu tæki, verkfæri og byggingar fara að mestu leyti til Nordnes verkefnisins í norður Noregi. Við áætlum að verða búin með niðurtektina og verklega vinnu við verkefnið í byrjun febrúar, en lokaskýrslum á að skila í lok mars. 

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn