Almennar fréttir

09. júní 2013

Harpa hlýtur ein virtustu byggingarverðlaun heims

Í dag voru Mies van der Rohe, verðlaun Evrópusambandsins fyrir nútímabyggingarlist, afhent en þau féllu í skaut Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhússins í Reykjavík sem ÍAV byggði ásamt undirverktökum. Þau voru afhent í Mies van der Rohe í Pavilion í Barcelona á Spáni. Verðlaunin, sem veitt eru annað hvert ár, eru ein virtustu verðlaun á þessu sviði í heiminum.

350 byggingar frá 37 löndum Evrópu voru tilnefndar til Mies van der Rohe verðlaunanna. Í rökstuðningi kom fram að formaður dómnefndar, Wiel Arets, lagði einkum áherslu á þrennt: Þá ákvörðun að ljúka við byggingu Hörpu þrátt fyrir kreppuna, einstaka tengingu byggingarinnar við höfnina og umhverfi Reykjavíkur og merkilega samvinnu við Ólaf Elíasson um glerhjúpinn utan um húsið.

Í þakkarræðu sinni við athöfnina þakkaði Halldór Guðmundsson forstjóri Hörpu, dómnefndinni, arkitektum hússins og byggingaraðilum þess. Hann bætti svo við;  „Mest af öllu vil ég þakka íslensku þjóðinni sem lét húsið verða að veruleika og fyllir það nú á hverjum degi af lífi.“

Við sem byggðum Hörpu erum stoltir af þessari viðurkenningu.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn