Almennar fréttir

06. apríl 2006

Skóflustunga að Háskólatorgi

Fimmtudaginn 6. apríl var tekin fyrsta skóflustunga að Háskólatorgi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Björgólfur Guðmundsson, formaður stjórnar Háskólasjóðs h/f Eimskipafélags Íslands tóku fyrstu skóflustunguna í sameiningu. Starfsmenn ÍAV hefja svo í beinu framhaldi framkvæmdir við Háskólatorg en gert er ráð fyrir að Háskólatorg verði vígt þann 1. desember 2007.

ÍAV ásamt arkitektastofunum Hornsteinum og teiknistofu Ingimundar Sveinssonar urðu hlutskarpastir í lokaðri samkeppni verktaka og hönnuða um Háskólatorg sem fram fór síðastliðið sumar. Neðstu hæðir Háskólatorgs verða steyptar næsta sumar og gert er ráð fyrir að húsunum verði lokað á vormánuðum 2007. Frágangur lóðar fer fram sumarið 2007 og frágangur innanhús haustið 2007. Gangi áætlanir eftir verður Háskólatorg afhent í nóvember 2007 og það vígt 1. desember 2007.

Háskólatorg er samheiti tveggja bygginga, sem með tengibyggingum verða alls um 8.500 fermetrar. Háskólatorg 1, á þremur hæðum, rís á grasflötinni milli Aðalbyggingar og íþróttahúss Háskólans. Háskólatorg 2 sem er á tveimur hæðum, verður reist á bílastæðinu milli Odda, Lögbergs og Nýja Garðs. Alls verður Háskólatorg vinnustaður á þriðja hundrað starfsmanna deilda og þjónustustofnana, þar verða á hverjum tíma rúmlega 1500 stúdentar við nám og störf og daglega munu fleiri hundruð gesta heimsækja Háskólatorg.

Bætt starfsskilyrði fyrir starfsfólk og stúdenta 

Háskólatorg leysir úr brýnni þörf í Háskólanum fyrir vinnuaðstöðu kennara, sérfræðinga og stundakennara. Þá er í báðum byggingunum gert ráð fyrir les- og vinnuaðstöðu fyrir á fjórða hundrað stúdenta í grunn- og framhaldsnámi úr öllum deildum skólans. Allt innra fyrirkomulag í nýbyggingunum miðar við sem mestan sveigjanleika, til að þjóna óskum á hverjum tíma um tengsl, samþættingu eða þegar starfsemi breytist.

Fleiri og fjölbreyttari rými til kennslu og rannsókna
Í Háskólatorgi eru fjölbreytt kennslurými í takt við fjölbreytta kennsluhætti rannsóknarháskóla, fyrir um eitt þúsund stúdenta, sem allar deildir Háskólans munu nýta. Þar verða tveir fyrirlestrasalir, hvor fyrir 180 nemendur, tveir 100 manna salir, sérstök umræðustofa fyrir “case study”, rannsóknastofa í hagfræði og sálfræði, aðgengissetur fyrir stúdenta og starfsfólk sem þurfa aðgang að sérhæfðum hugbúnaði og tækjum, tölvuver, smærri fundarstofur, viðtalsherbergi og fleiri rými.

Margvíslegar tengingar
Nýbyggingarnar eru tengdar bæði neðanjarðar frá jarðhæð Háskólatorgs 2 í kjallara Háskólatorgs 1 og úti frá jarðhæð Háskólatorgs 1 til annarrar hæðar Háskólatorgs 2. Þá tengist Háskólatorg 2 norður í Lögberg og í suður til Odda bæði á jarðhæð og annarri hæð. Tveir inngangar í Háskólatorg 2 eru í austur í átt að Nýja Garði og einn í vestur í átt að Árnagarði, til að tryggja greiða umferð þvert á legu Háskólatorgs 2. Aðalinngangur í Háskólatorg 1 er frá Alexanderstíg en jafnframt er fyrirhugaður inngangur úr vestri sem verður tengdur almennum umferðargöngum undir Suðurgötu. Þessu til viðbótar hefur verið óskað eftir við arkitekta bygginganna að huga að frekari tengingum við Nýja Garð og Árnagarð. Með tengingum nýrra bygginga og eldri eru sköpuð skilyrði fyrir flæði, tengsl og samneyti fólks á ólíkum sviðum og til að mynda eitt frjótt samfélag Háskólans.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn