Almennar fréttir

11. mars 2004

Umfangsmikil uppbygging hafin

ÍAV hefja mikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Austurlandi
Miðvikudaginn 10. mars var hafist handa við byggingu á einbýlishúsi við Vallargerði 17 á Reyðarfirði á vegum ÍAV. Húsið er það fyrsta sem mun rísa á Austurlandi á vegum fyrirtækisins. Samið var við Bragasyni ehf í Fjarðabyggð um að grafa grunninn. Gert er ráð fyrir að húsið rísi í apríl og verði tilbúið í júní n.k. Alls hafa ÍAV fengið úthlutað lóð undir 151 íbúð í svokölluðu Bakkagerði á Reyðarfirði. ÍAV hafa í samvinnu við Fjarðabyggð gert breytingar á skipulagi sem fyrir lá af hverfinu með það í huga að þétta þá byggð sem fyrir er og auka fjölbreytileika í íbúðagerðum. Í Bakkagerði verða samkvæmt gildandi skipulagi 55 einbýlishús, 44 íbúðir í rað- og parhúsum og 52 íbúðir í fjölbýlishúsum. Fjölbýlishúsin verða lágreist, 2-3 hæðir með 5 til 16 íbúðum.

Á Egilsstöðum hafa ÍAV fengið úthlutað lóðum fyrir 123 íbúðir í Votahvammi. ÍAV hafa látið deiliskipuleggja skjólgott og fjölbreytt íbúðahverfi milli núverandi byggðar og Eyvindarár. Skipulag svæðisins samanstendur af fimm húsaþyrpingum og tólf stakstæðum lóðum. Þyrpingarnar mynda sameiginlegt miðjurými, með leik- og útivistarsvæði og í hverri þyrpingu eru sameiginleg bílastæði. Eyvindaráin rennur í norðurjaðri Votahvamms og verður suðurbakki árinnar styrktur og endurgerður og svæðið meðfram ánni nýtt til útivistar. Göngustígar verða lagðir um svæðið sem tengjast göngustígum í núverandi íbúðabyggð. Eitt leiksvæði verður á skipulagssvæðinu og verður það tengt lóðunum umhverfis með göngustígum. Deiliskipulagið hefur verið auglýst og má reikna með að framkvæmdir geti hafist um mitt ár. Á svæðinu verða 10 einbýlishús, 41 íbúð í rað- og parhúsum og 72 íbúðir í fjölbýlishúsum. Fjölbýlishúsin verða þriggja hæða með 12 íbúðum hvert.

ÍAV gerir ráð fyrir að nota austfirska iðnaðarmenn við uppbygginguna að svo miklu leiti sem mögulegt er.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn