Almennar fréttir

27. ágúst 2008

Vel gengur með Bolungarvíkurgöng

Ósafl hefur í sumar verið að grafa frá bergi við fyrirhugaða jarðgangamunna.  Framkvæmdum miðar vel, en á svæðinu eru nú um 30 manns og fer fjölgandi á næstu vikum. Búið er að hreinsa allt laust efni frá borstafninum Bolungarvíkurmegin og Hnífsdalsmegin. Formleg sprengivinna hefst um mánaðamótin.

Unnið verður frá báðum endum, þ.e. frá Fremri-Ós í Syðridal í Bolungarvík og við Skarfasker í Hnífsdal. Gríðarlegt efni fellur til við gangagerðina. Það koma um 317.000 rúmmetrar af sprengigrjóti úr göngunum sjálfum sem nýtt verður í vegagerð. Síðan verður miklu efni rutt frá gangamunnum beggja vegna. Þegar er búið að ryðja niður úr fjallinu fyrir ofan Skarfasker við Hnífsdal um 150.000 rúmmetrum af efni sem sett var í uppfyllingu á nýjum vegi sem lagður er fram í sjó inn með Hnífsdalsvíkinni og fyrir framan þorpið í Hnífsdal. BM Vallá er að setja upp steypustöð í Bolungarvík vegna framkvæmdanna og mun hún framleiða steypu í vegskála við báða gangamunna og steypu í brýr.

Göngin verða 8 metra breið og 5,1 kílómetri að lengd. Byggðir 310 metra langir steinsteyptir vegskálar samtals. Auk þess verða lagðir samtals 3,7 kílómetrar af vegum beggja vegna ganganna og byggð verður ný 8 metra löng brú yfir Hnífsdalsá og 32 metra löng brú yfir Ósá í Bolungarvík.Verkinu á að vera að fullu lokið 15. júlí árið 2010.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn