Almennar fréttir

26. júní 2007

Íburðarmiklar íbúðir rísa á Seltjarnarnesi

Hafin er sala á glæsilegu 26 íbúða fjölbýlishúsi við Hrólfsskálamel 2-8 á Seltjarnarnesi, húsið er þrjár hæðir og bílakjallari. Íbúðirnar eru rúmgóðar og bjartar og mikið í þær lagt. Framkvæmdir hófust um miðjan maí og verða fyrstu íbúðirnar afhentar í nóvember á næsta ári.

Íbúðirnar eru einstaklega glæsilegar, á það jafnt við um hönnun, efnisval, búnað og frágang. Staðsetningin er einstök og stutt í allt það besta sem Seltjarnarnes hefur upp á að bjóða. Húsin eru hönnuð af arkitektastofunni Hornsteinum.

Hærra er til lofts en almennt gerist, innfelld lýsing verður í loftum með Instabus ljósastýringakerfi. Gólfhiti er með þráðlausum nemum sem auðveldar hitastýringu. Í hverri íbúð verður plankaparket, baðherbergin flísalögð sem og forstofu- og þvottahúsgólf. Innréttingar verða frá danska fyrirtækinu JKE Design með granít-borðplötum og heimilistæki frá Miele, en þessi fyrirtæki hafa getið sér gott orðspor fyrir mikil gæði og hagnýta hönnun. Mikil áhersla er lögð á hljóðeinangrun milli íbúða, sem næst með tvöföldum gólfum. Skýli úr hertu gleri verða á svölum. Mynddyrasímar og myndavélakerfi eru í aðalanddyrum stigahúsanna. Lyftur eru í öllum stigahúsum.

Húsin eru hönnuð með nútímaþægindi og -kröfur í huga. Að utan eru þau klædd að mestu með leirbrenndum flísum og að hluta með sléttri álklæðningu. Allir gluggar eru álklæddir timburgluggar. Húsið þarfnast því lágmarksviðhalds.

Staðsetning Hrólfsskálamels er einstök á höfuðborgarsvæðinu. Hann stendur hátt á Seltjarnarnesi, útsýni gott og stutt er í fagrar gönguleiðir meðfram nesinu og í sundlaug Seltjarnarness. Einnig er stutt í alla þjónustu og í miðbæ Reykjavíkur. Einn af betri golfvöllum landsins er skammt frá vestast á Seltjarnarnesi, auk þess sem aðstaða til íþróttaiðkunar er afbragðs góð.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn