Almennar fréttir

24. júní 2004

Íslenskir aðalverktakar 50 ára

Fimmtudaginn 24. júní 2004, voru liðin 50 ár frá því Íslenskir aðalverkakar tóku til starfa. Fyrirtækið var í upphafi stofnað að frumkvæði íslenskra stjórnvalda og var ætlað að uppfylla samningsskyldur Íslands við Bandaríkin á sviði verktöku vegna veru varnarliðsins hér á landi.

Á þeim tíma var tæpast til í landinu sú verkþekking né þau tæki sem dugðu til framkvæmda á varnarsvæði Bandaríkjahers nema þá hjá Bandaríkjamönnum sjálfum og verktökum þeirra. Yfirtaka ÍAV á verktökunni reyndist drjúgur skóli fyrir íslenska starfsmenntun á sviði byggingariðnaðar. Á vegum ÍAV voru flutt inn til landsins ýmsar vélar og tæki sem ekki höfðu áður sést í íslenskri verktakastarfsemi og báru íslenskar framkvæmdir um land allt þess fljótt merki. ÍAV stóð auk þess að fjölbreyttri menntun byggingarmanna með námsferðum til Bandaríkjanna og með ýmsum öðrum hætti í tengslum við sérhæfð verkefni og átti með því drjúgan þátt í framþróun íslenskrar verkmenningar.

Árið 1997 var ÍAV breytt í hlutafélag og í kjölfarið hafa orðið verulegar breytingar á rekstri og stjórnskipulagi félagsins. Félagið stefnir markvisst að því að vera alhliða fyrirtæki á sviði mannvirkjagerðar og að vaxandi hluti starfseminnar verði á sviði eigin framkvæmda og nýsköpunar. Í samræmi þessa stefnu keypti félagið árið 1999 allt hlutafé í tveimur rótgrónum byggingarverktakafyrirtækjum, Ármannsfelli og Álftárósi. Í maí 2003 lauk svo formlega afskiptum íslenska ríkisins af verktakastarfsemi en þá keyptu starfsmenn og stjórnendur ÍAV hlut þess í félaginu og eignuðustu í framhaldinu allt hlutaféð.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn