Geymsla

26. nóvember 2004

Hagnaður eykst um helming á milli ára

Niðurstaða af rekstri Íslenskra aðalverktaka hf.
fyrstu 6 mánuði ársins 2000:

Hagnaður fyrstu 6 mánuði ársins 2000 nam 81,5 millj. kr. að teknu
tilliti til reiknaðra skatta samanborið við 40,6 millj.kr. fyrir sama
tímabil árið 1999.

Á stjórnarfundi Íslenskra aðalverktaka hf. þann 31. ágúst var árshlutareikningur fyrir tímabilið janúar-júní 2000 staðfestur. Árshlutareikningur Íslenskra aðalverktaka hf. hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og árshlutareikning
móðurfélagsins. Hann er gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og árið áður.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu samtals 3.561 millj. kr. fyrstu sex mánuði ársins samanborið við 2.189 millj.kr. á sama tímabili árið 1999. Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir fjármagnsliði og skatta nam kr. 339 millj.kr. samanborið
við 74 millj. kr. árið áður. Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir skatta nam 123 millj. kr. samanborið við 67 millj.kr. árið áður. Að teknu tilliti til reiknaðs tekju- og eignarskatts er hagnaður tímabilsins 81,5 millj. kr. samanborið við 40,6 millj. kr. árið áður.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir samstæðunnar 12.940 milljónum króna en voru 9.412 millj. kr. í lok ársins 1999. Bókfært eigið fé þann 30. júní
nam 2.824 millj. kr. og hefur aukist um 58 millj. kr. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar
er 22 % samanborið við 29 % í árslok 1999.

Veltufé samstæðunnar frá rekstri var 312 millj. kr. samanborið við 166 millj. kr. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 1999.

Að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem ávallt fylgir verktökustarfsemi er afkoma úr verkum félagsins viðunandi. Rekstrarkostnaður hefur að mestu þróast eins og ráð var fyrir gert en þó hefur spenna í efnahagslífinu og á vinnumarkaði haft nokkur áhrif til kostnaðarhækkana.
Vaxta- og gengisþróun á tímabilinu var óhagstæð og hefur verulega neikvæð áhrif á fjármagnsliði rekstrarins.

Á tímabilinu var haldið áfram endurskipulagningu, hagræðingu og sameiningu eininga félagsins og flutti félagið í nýjar höfuðstöðvar á Reykjavíkursvæðinu að Suðurlandsbraut 24. Auk fjárfestinga í verkum í vinnslu voru verulegar fjárfestingar í eignum og byggingarrétti til að leggja grunn að áframhaldandi eigin framkvæmdum til sölu bæði á atvinnuhúsnæðis- og íbúðamarkaði. Félagið heldur áfram þeirri stefnu að auka vægi eigin framkvæmda til sölu til að minnka sveiflur í starfseminni. Sá kostnaður sem tengist lóðaeign og byggingarrétti á að skila félaginu arðsemi í framtíðinni.

Sala félagsins á fasteignum á íbúðar-og atvinnuhúsnæðismarkaði gekk vel og voru seldar eignir á tímabilinu fyrir nær 1.400 milljónir króna.
Verkefnastaða félagsins er góð bæði með tilliti til eigin verka og tilboðsverka.

Helstu verk á íbúðamarkaði sem félagið vinnur nú að eru:

Íbúðabyggingar á Sóltúnsreit í Reykjavík
Hólmatúnshverfið á Álftanesi
Unnið er einnig að skipulagi og undirbúningi framkvæmda á landi Blikastaða í Mosfellsbæ, sem er í eigu félagsins, auk annarra íbúðabygginga.

Önnur ný verkefni sem félagið vinnur að eru m.a.
Grunnskóli í Mosfellsbæ
Viðbygging við skóla á Álftanesi
Hjúkrunarheimili við Sóltún
Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Kjúklingasláturhús í Mosfellsbæ
Hús fyrir Héraðsdóm Reykjaness og Landsbankann
í miðbæ Hafnarfjarðar.

Auk þess vinnur félagið að ýmsum verkefnum á Keflavíkurflugvelli
og er stærst þeirra tilboðsverk vegna endurnýjunar ljósabúnaðar á flugbrautum.

Félagið vinnur að gerð Vatnsfellsvirkjunar og er það verk vel á veg komið og á áætlun þrátt fyrir mjög erfið vinnuskilyrði síðasta vetur.

Hjá félaginu og dótturfélögum þess starfa á níunda hundrað starfsmenn bæði innlendir og erlendir.

Twitter Facebook
Til baka

07. mars 2011

Nýir vefir

Í framhaldi af skipulagsbreytingum sem kynntar voru um síðustu áramót er verið að leggja lokahönd á smíði vefa fyrir ÍAV, ÍAV Fasteignaþjónustu og ÍAV Námur.

21. janúar 2011

Gæðastefna ÍAV

Færni, frumkvæði og fagmennska starfsmanna ÍAV leiði til hagkvæmra og eftirsóttra lausna fyrir viðskiptavini.Starfsfólk ÍAV leggi áherslu á virðingu og traust í samskiptum við viðskiptavini, hagsmunaaðila og sín á milli.

Fréttasafn