Verkflokkur

24. nóvember 2004

Eitt stærsta steypta gólf landsins unnið á mettíma

Lokið hefur verið við að steypa eitt stærsta gólf landsins í Vöruhóteli Eimskips sem ÍAV eru með í byggingu. ÍAV réðu til verksins hollenskan verktaka, Van Berlo, til að steypa gólfplötu vöruskálans. Þeir eru sérhæfðir á þessu sviði og steypa yfir milljón fermetra á ári hverju. Mun meiri nákvæmniskröfur eru gerðar til verksins en þekkst hafa hér á landi áður. Þeirra verkþáttur er um 16.500 fermetrar að stærð.

Í gólfplötuna fóru um 3200 rúmmetrar af steypu en það samsvarar steypu úr um 400 steypubílum. Verktíminn var óvenjustuttur eða einungis tvær vikur. Hefur slíkur verkhraði ekki þekkst hér á landi áður. Við steypuvinnuna unnu 20 starfsmenn Van Berlo og voru fluttir til landsins 20 gámar með efni og vélum til verksins. Steypustöðin BM Vallá framleiddi steypuna í gólfið.

Í lok mars 2002 var undirritaður samningur milli ÍAV og Eimskip um bygginguna á lóð Eimskips við Sundabakka. Öll hönnun hússins er hluti af samningi og hófst hún strax ásamt aðstöðusköpun og undirbúningi. Jarðvinna hófst af fullum krafti í byrjun apríl, uppsteypa í byrjun maí og reising húss í lok júlí. Húsið verður fokhelt nú í lok mánaðarins. Öll stálgrind var framleidd í Finnlandi og þaðan komu einnig útveggjaeiningar. Vöruhótelið er stálgrindarhús, grunnflötur er um 17.500 fermetrar. Í húsinu er milligólf um 5.200 fermetrar. Frí lofthæð í aðalsal er 15 metrar og ná hillukerfin í þá hæð. Ráðgert er að húsið verði fullbúið í febrúar 2003. Á byggingatíma hússins koma einnig aðrir verktakar inn á vegum Eimskips. En þeir sjá einkum um uppsetningu á hillum, færiböndum og fjarskiptabúnaði. Á verktíma var einnig samið við ÍAV um lóðarfrágang og breytingar á holræsalögnum á lóð Vöruhótelsins.

Twitter Facebook
Til baka

Fréttasafn